Svanur KE 6

56 rúmlestir. smíðaár 1954 í Keflavík. vél wichmann 240 hestöfl. Heimahöfn Keflavík.

Ljósmyndari: Snorri Snorrason. | Tekin: 19.4.2008 | Bætt í albúm: 20.3.2011

Athugasemdir

1 identicon

H1 { margin-top: 0in; margin-bottom: 0in; direction: ltr; color: rgb(0, 0, 0); widows: 2; orphans: 2; }H1.western { font-family: "Times New Roman",serif; font-size: 18pt; font-weight: normal; }H1.cjk { font-family: "Times New Roman",serif; font-size: 18pt; font-weight: normal; }H1.ctl { font-family: "Times New Roman",serif; font-size: 12pt; font-weight: normal; }P { margin-bottom: 0.08in; direction: ltr; color: rgb(0, 0, 0); widows: 2; orphans: 2; }P.western { font-family: "Times New Roman",serif; font-size: 12pt; }P.cjk { font-family: "Times New Roman",serif; font-size: 12pt; }P.ctl { font-family: "Times New Roman",serif; font-size: 12pt; }

 

Keflavík 1962       Hallo ég var á þessum bát 62 og 83 það vae svona:


Àrið 1939 var smíðaður í Svíþjóð 76 tonna eikarbátur. Bátur þessi var knúinn 150 hestafla Bolinder vél. Haustið 1945 var báturinn skráður í Keflavík, þá nýkominn til landsins. Dux hét hann fyrstu árin, en við eigandaskipti var hann skírður Svanur og fékk einkennisstafina KE 6. Ì mars árið 1953 strandaði Svanurinn á Garðskagaflös, áhöfnin bjargaðist. Flakið var flutt í dráttarbrautina í Keflavík. Þar var smíðaður nýr bolur, minni en sá gamli. Við endurskráningu í desember 1954 mældist báturinn 56 tonn, hafði styttst aðeins þarna á skurðarborðinu í Dráttarbrautinni. 1959 var svo skipt um vél og sett niður 240 hestafla Wickman.


Sá er hér segir frá réð sig á þennan lífsreynda bát í byrjun mars árið 1962. Ráðninguna bar að með þeim hætti að farið var á skrifstofu L.Ì.Ù. í Hafnarhvoli eftir hádegi á þriðudegi ig spurt um pláss. Var mér vísað inn á skrifsstofu þar sem ungur maður var. Hann spurði “ertu vanur”, “hvaða skip?” Þormóður Goði og Víkingur var svarið. Þú átt að mæta kl. tíu í Olíusamlagið í Keflavík þar verður Àsmundur Friðriksson. Þú segir honum að þú sért að fara á Svaninn. Svo fór ég heim að tína saman sjógallann og athuga hvða þyrfti að kaupa. Mig vantaði bara sjóhatt sem ég keypti hjá Ellingssen fyrir 150 krónur. Þegar ég svo mætti á tilsettum tíma í Olíusamlagið var enginn Àsmundur þar. Aftur á móti var þar maður sem hét Albert, hann sagði mér að bíða, Àsmundur kæmi. Albert þessi sat í einskonar afgreiðslu þar sem var talstöð og sími. Stöðugt rennerí var þarna, sumir að fá afgreidda olíu sem var sjálfrennandi úr geymum uppi á bakkanum, rennslismælarnir voru þarna niðri og voru leiðslur niðrá bryggju. Aðrir áttu önnur erindi, veiðarfæri, peningar, kostur, meiri mannskap. Þessi Albert var ýmist í talstöðinni eða símanum og virtist halda um ýmsa þræði í þessari stóru verstöð. Um ellefuleytið kom Àsmundur og Svanurinn renndi að bryggjunni skömmu síðar með fulla lest af boltaþorski. Àsmundur kynnti mig fyrir skipstjóranum Garðari Magnússyni frá Hökuldarkoti. Fóru þeir svo niður í lúkar en ég í löndunina. Lestin var lúgufull, forum við tveir og tveir til skiptis, í tíu mínútna törnum að tína fiskinn upp úr steisunum. Þegar við svo komum löndunarmálinu niður fór þetta að ganga betur. Við vorum búnir að ganga frá eittleytið. Það var ræst klukkan 6. Kokkurinn var búinn að taka til mat, hann var kallaður Halli. Þegar við vorum að klára kaffið heyrðum við að slegið var af og kallaði “bauja”. Èg tók stakkinn, snaraðist upp og tók baujuna með Einari Pálmasyni stýrimanni, við draujuðum henni aftur á hekk. Einar sýndi mér hvernig átti að hringa færið niður og þar með var ég orðinn baujumaður. Netin voru dregin með lágþrýstu vökvaspili og var fyrsti vélstjóri oftast við spilið. Fyrsti vélstjóri var elsti maðurinn um borð. Hann hét Jóhann en var kallaður Dalli. Annar vélstjóri var kallaður Villi og sá um það vandasama verk að leggja niður netin og raða steinum og kúlum. Við úrgreiðsluborðið voru svo hásetarnir, stýrimaðurinn og kokkurinn. Þarna í byrjun vertíðar voru auk mín þarna hásetarnir Indriði Indriðason, Þröstur Brynjólfsson og tveir strákar frá Siglufirði, Jói og Palli. Siglfirðingarnir höfðu verið hásetar á togaranum Elliða sem brotnaði og fórst í fárviðri í febrúar. Þeim Elliðamönnum var bjargað á elleftu stundu af togaranum Júpíter sem var undir stjórn Bjarna Ingimarssonar. Þegar ég hafði verið nokkrar mínútur þarna í úrgreiðslunni fór ég að verða skrýtinn í maganum og ældi svo eins og múkki. Toppstykkið var greinilega ekki programmerað fyrir sveiflutíðni netbáts, þetta var sjóveiki sem varði í þrjá sólahringa. Aðal vinna okkar háseta var að ná fiskinum úr netunum og gera þau klár fyrir næstu lögn. Þetta gat stundum verið snúið því steinarnir virtust hafa tilhneigingu til að snúast utanum netin. Kúlurnar voru úr gleri, klæddar netpoka, hnútarnir á því neti höfðu alveg sérstaka tilhneigingu til að festast í þorskanetinu. Það var á köflum mun veiðnara á kúlur en fisk. Svo var það vinur okkar allra Þorskurinn, hann gafst nú ekki upp baráttulaust, var oft búinn að vefja netinu utanum sig marga hringi áður en hann andaðist. Ef það komu upp mjög erfið tilfelli, áttum við áhlaupssveit sem í voru stýrimaðurinn og kokkurinn. Kokkurinn hafði bæði kosti og galla. Við áttum frí á laugardögum og ef kokkurinn lenti á fylleríi og mætti ekki á laugardagskvöldum þá var enginn sunnudagsmatur. Það var galli. Ef það var mikið fiskerí á mánudegi, var þetta kostur, kokkurinn vann þá á dekkinu með tvöföldum hraða, meðfram tilreiðslu á sunnudagsmatnum. Einu sinni þegar við vorum matarlausir á sunnudegi datt Þresti, sem hafði verið í M.A. og kunni að eigin sögn að reikna út rúmmál kókflösku, í hug að sjóða rauðsprettu. En eitthvað var nú lystin takmörkuð. Kokkurinn var mikill sögumaður, hafði víða komið við og lent í ýmsu. Halli og Villi voru fjölskyldumenn, þeir áttu heima í Mýrahúsa og Múlakamp, ekki í bröggum, nei þeir áttu hús sem þeir höfðu smíðað sjálfir. Þeir “undirofficerar” virtust fylgjast að og höfðu verið þarna síðan í janúar. Seinna rakst ég á þá í byggingarvinnu. Þá var Halli smiður en Villi handlangari. Sérsvið Halla í sögu var Magni í Koti, pabbi skipstjórans, en Magnús hafði verið mikið fyrir jólaköku og sultu. Meðan Garðar var að gleypa í sig matinn sagði hann sögur úr stríðinu. Annars virtist skipstjórinn aðallega lifa á kremkexi og kaffi. Skipstjórinn svaf í bestikkinu og þar var líka talstöð sem fékk orku frá þrem jarðýturafgeymum sem voru uppi á stýrishúsþakinu. Þarna á þakinu var líka gúmmíbátur í trékassa sem lokað var með tolltvinna og svo náttútulega hnífur festur við snærið. Þarna uppi var líka heljarstór ljóskastari og svo aðalsiglingatækið, kompásinn sem felldur var niður fremst í þakið. Inni í stýrishúsinu var stýrið og Simrad dýptarmælir með handsnúnu botnstykki. Í lúkarnum var olíukynt kolaeldavél sem notuð var við matargerðina og logaði í henni allan sólarhringinn. Frá eldavélinni lágu hitaleiðslur aftur í stýrishús og káetu. Á eldavélinni stóð pottur með vatni í, stöðugt sauð í pottinum, var vatnið úr honum notað til þvotta á mönnum og matarílátum. Svo var hellt upp á kaffi beint úr pottinum. Venjulega vorum við búnir að landa seint á kvöldin, stundum gengum við strákarnir eftir löndunina upp á bílastöð sem var þarna á Vatnsnesinu. Eitt sinn er við vorum þarna seint á föstudagskvöldi kom einn bílstjórinn með brennivínskassa, skellti honum á gólfið og seldi sjómönnunum innihaldið á c.a. þrem mínútum. Allt á yfirverði og staðgreitt því venja var að láta menn hafa þúsundkall eftir föstudagslöndunina. Í lok marz vorum við að steina niður net, þá birtist skyndilega maður og fór að vinna með okkur. Þarna var kominn Ólafur Guðlaugsson föðurbróðir Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar.

Ólafur var mikill sögumaður og gekk kjafturinn á honum eins og vélbyssa allan sólarhringin. Eftir þetta varð kokkurinn þögull því hann hafði ekkert við Óla sem víða hafði verið s.s., á togurum við Grænland, í Hvítahafinu, róið frá Vestfjörðum, verið verkstjóri í Bretavinnunni, hjá kananum á Keflavíkurflugvelli, nú svo á unglingsárum aðstoðarmaður Breskra Laxveiðimanna í Borgarfirði en af þeim hafði hann lært Ensku. Mér hafði gengið illa í fermingarfræðsllunni, gekk illa að læra sálmana og hafði verið fermdur hálfgert upp á faðirvorið. Veltitíðni á netabát virtist breyta þessu, því skyndilega kunni ég vísur eftir að hafa heyrt þær einu sinni. Óli sagði okkur frá körlum í bretavinnunni sem voru að kveðast á, Brezki offiserinn skildi þetta ekki og spurði hvað mennirnir væru að gera. Þá sagði annar karlinn:


We are fighting men

We are united nation

We will fight to the last drop of blood

If we have ammoniation


Svo hvarf vörubíllinn og offiserinn varð órólegur. Þá heyrðist í einum:


Sir I am so sorry

To tell you the story

Of the lorry

It is fucked up

In the quarry


Svo skall á togaraverkfall. Nágranni minn og skólabróðir úr Skerjafirðinum, Gylfi Helgason og nokkrir aðrir af togaranum Ingólfi Arnarsyni fóru að róa á Haföldunni frá Neskaupstað sem haldið var út frá Sandgerði. Eftir löndun eitt kvöldið var ég að drekka kaffi með Halla og Villa þá birtist Gylfi þarna í lúkarnum og spyr hvort okkur vanti ekki kvenfólk, hann sé með tvær stelpur sem hann þyrfti að losna við. Karlarnir urðu klumsa við þetta, þetta var nú einum of mikið þó þeir væru ýmsu vanir úr stríðinu. Gylfi sagði að þetta væru kostakaup við þyrftum ekkert að borga og svo gætu stelpurnar vaskað upp og þrifið sér sýndist að það veitti ekki af því. Þá fór nú að síga í Halla kokk heilinn í honum hefir sennilega farið í lága drifið því hann skynjaði að við Gylfi værum kunnugir.

Þá fór málið að skýrast, togaramennirnir höfðu bruðið sér á ball í Þórskaffi og boðið stelpunum með til sjós, nú voru þær orðnar leiðar og vildu komast heim. Þar sem þeir voru tímabundnir og leiðin til Reykjavíkur var löng fannst þeim upplagt að koma þeim á okkur. Villi var svona maður sem sat bara og hugsaði sitt, skyndilega segir hann: Þið eigið bara að fara með stelpurnar upp á rútustöð. Þar með var sá vandi leystur. Helgina eftir þetta fékk ég far með Sandgerðingunum til Reykjavíkur á leiðinni fóru þeir að segja frá skáldum sem voru á Ingólfi Arnarsyni, þetta voru Magnús Stephensen og Bjarni Veturliðason. Einhventíma lenti Hreiðar svarti í vandræðum við forhlerann. Þá kvað Magnús:


Sukk er margt í sjóferðum

Sverfur skart að honum

Hreiðar svarti á hleranum

Hangir á kartnöglonum


Lestarmaðurinn á Ingólfi hét Einar Mýrkjartansson Magnúsi þótti hann svolítið kúnstugur og kvað umhann:


Fríður í vöngum feikna snar

Fjarri röngum línum

Einar löngum lestarnar

Labbar í öngum sínum










Bjarni Veturliða sagði að þetta væri gamaldags hjá Magnúsi og kvað:


Langt úti á Faxaflóa er togari á beit

Þorskur stingur hausnum upp úr sjónum og spyr

Hvað er klukkan

Skipstjórinn stendur í brúnni

Tekur í nefið og svarar

Allt í lagi góði

Það er glas


Af þessari upptalningu mætti halda að við hefðum verið á leiðinni á einhverja kvæðamannaráðstefnu. Svo var ekki aðalerindið var að fara á ball í Þórskaffi. Eitt mikilvægt atriði hafði þó gleymst, spariföt Eiríks Sigurjónssonar voru í hreinsun og hreinsunin var búinn að loka þegar kvæðamennirnir komu þangað. Þá hófst dauðaleit að fötum á Erík sem endaði með því að hann skreið inn um glugga hjá systur sinni upp í hlíðum, þar fann hann nokkurnvegin passlegan jakka af strætóstjóra. Þeir í Þórskaffi höfðu nýlega lent í vandræðum með einhverja hermenn og voru búnir að loka á alla menn í uniformum. Þá reyndum við að komast í Vetrargarðinn en þar var allt fullt og Lögreglan búin að setja vörð í eldhúsið en þar var vanalega hægt að komast inn gegn aukagjaldi ef aðgöngumiðarnir voru uppseldir. Þarna var orðið það áliðið að við fórum bara aftur suður með sjó, klárir í nýjan róður.

Fiskiríið gekk prýðilega við vorum mikið í straumnum úti við Eldey þess vegna vorum við með tvo stóra dreka á hvorum trossuenda og svo fjóra belgi til að halda uppi færunum. Baujurnar voru svona sex metra langir tréstaurar með korkfloti og nokkrum hlekkjum af ankeriskeðju í kjölfestu. Eitt sinn vorum við með eina trossu í bakborðsganginum og ég er að drauja bauju yfir trossuna þarna í ganginum þá festist hællinn á öðru stígvélinu í möskva og beint á rassgatið en gallinn var bara sá að rassgatið lenti fyrir utan lunninguna. Hausinn kom fyrst í sjóinn og mér fannst að sjóhatturinn myndi týnast og það yrði töluvert tjón, næsta skynjun er sú að ég held með báðum höndum um baujufærið, sem rekst út en festist fljótlega. Þarna drógst ég aftan í bátnum og beið björgunar. Sú bið varð ekki löng því allt í einu heyrðust hróp og köll, báturinn stöðvaðist, áhlaupssveitin birtist á lunninguni og fallistinn var dreginn um borð. Sjóhatturinn var enn á hausnum, stígvélin voru brett alveg niður á hæla og ég var þurr fyrir ofan mitti. Garðar skipstjóri varð alveg kolbrjálaður og sagði að ef menn væru skráðir á skip þá ættu þeir að vera um borð en ekki hangandi aftan í þeim. Mig rak hann ofan í vél til að skipta um sokka og buxur. Buxurnar hengdi ég upp í vélarrúminu, en þessu vélarrúmi átti ég eftir að kynnast mjög vel seinna. Í kaffinu var Garðar farinn að róast og sagði okkur frá öðrum loftfimleikamanni sem hafði verið þarna vertíðina árið áður, sá hafði leikið það að stökkva upp af úrgreðsluborðinu, í kröppum sjó svona rétt áður en báturinn komst á öldutopp. Í seinasta stökkinu var hann svo óheppinn að báturinn valt undan og hann lenti í sjónum. Vikuna fyrir páska skiptum við um net, þetta gekk þannig fyrir sig, að á landstíminu skárum við af steina og kúlur, svo var steinuð niður ný trossa eftir löndun. Vanalega var því ekki lokið fyrr en kl. þrjú á næturnar, svefntíminn var þá bara útstímið sem var þrír tímar. Um páskana voru slæm veður og mikill straumur, þegar við á endanum komust út fundum við bara tvær trossur, þegar þær voru dregnar hófst leit að hinum. Tvær fundust með dýptarmælinum og voru þær slæddar upp, þetta var ógurlegur ýlduköggull. Það sem heilt var af fiskinum settum við í lestina en hitt á dekkið. Þegar við fórum að landa dekkfarminum gaus upp slík fýla að hafnarsvæðinu hefði verið lokað ef núgildandi mengunarreglur hefðu verið til.

Á sumardaginn fyrsta höfðum við lokið öllum verkum um níuleitið, þá datt Óla það í hug, að það væri upplagt að fara á slysavarnaball í Úngó. Kokkurinn sagði að Gestur yrði að styrkja félagið ef hann dytti aftur í sjóinn og þyrfti að kalla út björgunarsveit. Þegar við vorum sestir niður fór Óli að segja sögur, við vorum með appelsín í glösum en ekkert brennivín það gerði ekkert til því þeir sem hlustuðu á Óla borguðu með brennivíni og sögurnar mögnuðust um leið og appelsínið varð ljósara. Skyndilega hætti tónlistin og hljómsveitarstjórinn sagði að það væri áriðandi tilkynning, “Gestur og Ólafur á Svaninum eiga að tala við dyravörðinn strax”. Far þú að tala við útkastarann sagði Óli. Jú dyravörðurinn sagði að skipsjórinn hefði verið þarna og sagt að það yrði ekki róið í nótt. Þegar ég kom til baka var Óli að segja söguna af því þegar togarinn Júlí strandaði 1. Desember 1948. Áður en þeir fóru dreymdi hann að hann væri á bryggjunni í Hafnarfirði þar sem Júlí lá, á bryggjunni voru 24 líkkistur Óli kíkti í kisturnar og voru þær allar tómar nema ein . Sá sem var í kistunni frétti af draumnum og fór ekki með skipinu. Skipið standaði í brjáluðu veðri á versta stað yst í Önundarfirði og var öllum bjargað af togaranum Ingólfi Arnarsyni. Þegar þeir koma suður frétta þeir að sá sem ekki fór með hafi dottið á svelli á bryggjunni og látist af höfuðáverka. Við fórum beint um borð eftir ballið, þar voru Halli og Villi eitthvað skrýtnir á svipinn. Halli spurði hvort Garðar hefði verið á ballinu, nei en hann talaði víst við dyravörðinn sagði Óli, þá fór Villi að hlæja og sagði að það hefði verið Halli sem talaði við dyravörðinn, en þetta er allt í lagi Garðar var hérna og sagði að spáin væri svo leiðinleg að það borgaði sig ekki að róa.

Þegar við vorum á leið til lands 3. maí, fór veður versnandi, stýrimaðurinn stoppaði vegna þess að fiskkassi aftan við lúguna hafði brotnað og fiskurinn var kominn út um allt. Við gerðum við þetta og héldum svo áfram heim. Þegar við komum inn heyrðum við það að það væri týndur bátur úr Njarðvík. Við löndunina var ég uppi á bílpallinum og sá um trogið sem tók hálft tonn, vegna þess að báturinn valt við brggjuna þá rann ég til á slorhálum pallinum um leið og ég kallaði slaka, lenti trogið ofan á öðrum fætinum og varð hann þar með ónothæfur. Ásmundur útgerðarmaður var þarna og sagði vörubílstjóranum að fara með mig til læknis, læknirinn átti heima við Vatnsnesveg þar sem hann var með lækningastofu fyrir sjómenn í vaskahúsinu, gengið var inn í það beint af götunni. Læknirinn vildi Röntgenmynda hnéð morgunin eftir, þannig að sofið var í landi þessa nótt. Við áttum innhlaup í verbúð þarna á Vatnsnesinu, Þar mætti mér óhugnanleg sjón morgunin eftir, stefnið á bátnum sem hafði týnst, stóð upp úr sjónum nokkra metra frá landi menn á v.b. Baldri frá Dalvík voru að reyna að koma á það böndum. Þarna fórust bræður úr Njarðvík og frændi þeirra. Eftir myndatökuna sagði læknirinn mér að fara heim og hvíla fótinn í nokkra daga. Eftir nokkra daga hringdi svo Garðar og sagði að nú hlyti þetta að vera orðið gott. Og ég hélt aftur suður með sjó til róðra. Nú var farið að draga úr afla svona hálft tonn í trossuna og veður góð þannig að við vorum iðulega komnir inn kl. fimm á daginn og búnir að borða kl. hálf átta eins og bankastjórar. Þann tíunda maí drógum við allar trossurnar en lögðum enga. Daginn eftir skárum við af og fórum með veiðarfærin í geymslu upp í heiði í skemmu þar sem nú er bílapartasala við veginn í flugstöðina, svo þrifum við bátinn. Á landstíminu daginn áður höfðum við útbúið heljar trossu af gúlfdreglum og skítugum fötum sem við hengdum aftaní bátinn, þetta varð allt tandurhreint þótt ekkert væri þvottaefnið. Þegar við höfðum þrifið vildum við Þröstur kaupa rjómatertu, en það vildi Villi ekki, sagði að það væri bara froða, á þessum degi væri keypt söngvatn. Við unglingarnir fórum því upp á bílastöðina og keyptum eina Vodka Vyborowa, bílstjórarnir höfðu fengið sent hlass frá Reykjavík í tilefni dagsins. Þegar söngvatnið var farið að virka byrjuðu sögurnar : Stýrimaðurinn sagði okkur frá aflakló úr Vestmannaeyjum, sá var ekki mjög bókhneigður, en fór í Stýrimannaskólann til að afla sér réttinda. Kennarinn spurði hann hvernig siglingaljós ætti að nota í Hvítahafinu. Aflaklóin vissi þetta ekki, en næsti maður hvíslaði að honum svört ljós og hann svaraði svört ljós. Óli hafði náttúrlega verið í Hvítahafinu, á Hallveigu Fróðadóttur, þar um borð var líka þjóðskáld Árnesinga Guðmundur Haraldsson. Ráðamenn höfðu verið smeykir um að Guðmundur lenti í strætinu og ráðið viðþví var að koma honum á Hallveigu. Gallinn á þessu var bara sá að skáldið var lítið fyrir vinnu, ef honum var sagt að gera eitthvað, spurði hann á móti hver ætti að gefa fuglunum. Guðmundi var sagt upp en hann hætti ekki. Næst var honum sagt að það væri stelpa í símanum á Togaraafgreiðslunni þegar Hallveig var að fara, Gvendur sá í gegnum það og komst með. Endir sjómennsku skáldsins varð sá að Skipstjórinn réði menn í allar kojur og lét bátsmanninn smíða rúm milli borðanna í borðsalnum, Gvendur var látinn sofa þar, gallinn fyrir Gvend var bara sá að það var stöðugt rennirí þarna og hann gat lítið sofið og sofnaði ekki almennilega fyrr en heima hjá sér næst þegar þeir komu í land. Þegar skipið fór út aftur var Guðmundur Haraldsson ekki vaknaður og þannig endaði hans sjómennska. Haraldur kokkur var frá Eyrarbakka eins og Guðmundur, hann sagðist hafa verið að róa úr Keflavík á stríðsárunum, vinur hans og hann áttu heimboð hjá tveim stúlkum sem voru þarna í verbúð. Þegar þeir mæta í verbúðina eru þar eru þá fyrir fjórir Amerískir landgönguliðar, þarna varð ósætti og hröktust Íslendingar undan út úr verbúðinni. Þar tóku þeir til fótanna og landgönguliðarnir á eftir, sá þeirra sem fljótastur var náði Halla, sem snerist til varnar og sneri kanann niður í vörubílsflak sem þarna var. Kom höfuðið niður á vélina og varð mikið sár. Frétti Halli seinna að landgönguliðinn hefði látist á sjúkrahúsi hersins. Þetta var saga sem Ólafur Guðlaugsson átti ekkert svar við og leystist þar með samkvæmið upp, enda söngvatnið búið. Siglfirðingarnir leigðu sér flugvél og fóru heim í beinu leiguflugi, við hinir tókum rútuna til Reykjavíkur.



Reykjavík 29. júlí 2002

Gestur Gunnarsson















 



 










 

 









 






 








 


 

 

Gestur Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.9.2013 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband