5.7.2010 | 15:39
Gola RE 945 komin í Breiðafjörð.
Ég lagði í hann frá Reykjavík um hádegi á laugardag, til Ólafsvíkur. kom hingað upp úr miðnætti. Ágætis veður alla leið, svolítill veltingur á Faxaflóa og smá hjakk frá Öndverðarnesi, 10 m. Í nebbann.
Góðar móttökur hér í Ólafsvík, gott bryggjupláss og landrafmagn. Stýrimaðurinn kom hingað með rútu á sunnudagskvöld. Meiningin er að vera hér í Breiðafirði fram yfir verslunarmannahelgi.
Við ætluðum norður á hornstrandir, en norðaustan áttin er svo helvíti þrálát núna. Hornstrandir bíða næsta sumars.
Stefán Pétursson sjómaður hér í Ólafsvík, bróðir stýrimannsins á Golu, kom í morgunkaffi og spjall í morgun. Stebbi byrjaði til sjós 13 ára gamall á togaranum Vetti frá Fáskrúðsfirði. Hann var á þeim togara 15 ára gamall þegar Júlí frá Hafnarfirði fórst á Nýfundlands miðum. Veðrið var snar vitlaust og ísingin svo mikil að hver dropi sem kom á skipið fraus.
þetta var barátta upp á líf og dauða, sólarhringum saman við að berja ís af skipinu. Júlí var fyrir aftan þá, þeir sáu á honum ljósin. Skyndilega voru þau horfin. Þeir á Vetti vissu strax hvað hafði gerst, Júlí hafði hvolft vegna yfirísingar. Þeir gátu ekkert gert, annað en herða sig við ísbarninginn af sínu skipi, annars hefðu þeir farið sömu leið.
Þarna fórust 32 ungir menn og 51 barn varð föðurlaust. Stebbi sagði okkur að aldrei liði sá dagur að honum verði ekki hugsað til þessara manna og barnanna.
Þessi breski skemmtibátur fór héðan úr Ólafsvík á sunnudagsmorgun.
Strandveiðibátarnir réru í morgun, í blíðu veðri.
Athugasemdir
Ævinlega blessaður! kæri mágur, það er ekki í kot vísað að vera á Breiðafirðinum. ´Þið ætlið að vera þar fram yfir verslunarmannahelgi, vonandi fáið þið þolanlegt veður. Ég ætla að fylgjast með ykkur. Skilaðu kveðju til til Höllu sys og Stebba bróður. Kveðja.
Björk Pétursdóttir (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 19:59
Góðan daginn Björk. Þakka góðar óskir með veðrið. Hann er að bræla upp núna, en á að ganga niður á föstudag eða laugardag. Það væsir ekki um okkur hér þangað til. Næsti áfangastaður er Flatey. Stebbi kom í heimsókn í gærkveldi, við baukuðum smá.
Kær kveðja til ykkar héðan úr Golu.
GOLA RE 945, 6.7.2010 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.