8.7.2010 | 11:30
Bræla við Breiðafjörð.
Nú er landlega hjá strandveiðibátum, eins og hjá okkur á Golu RE 945. Við höfum það fínt. Göngutúr, bað í sundlauginni, og upplestur úr Bör Börssyni. Að ógleymdu lúxus fæði, sem mönnum í mínum þyngdarflokki geðjast vel.
Í gærkvöldi var boðið upp á hakk og strokanoff með öllu tilheyrandi. Í eftirrétt var ostur og vínber. Öllu var skolað niður með appelsíni af bestu gerð.
Þessi franska skúta kom hingað á þriðjudag. Þeir lögðu í hann aftur í gær og stefndu norður fyrir Bjarg. Veðrið var fínt hér í höfninni, en ekki að sama skapi fyrir utan. Þegar seglin voru sett upp fyrir utan höfnina lagðist hún flöt
Tveir þraut reyndir sjómenn sem voru í kaffispjalli um borð í Golu voru okkur sammála um að ekki væri það mikil sjómennska að fara af stað í þessu veðri.
Við stýrimaðurinn vorum að ræða um það, eftir að karlarnir voru farnir, að vonandi myndu þeir leggjast undir Bjargið og bíða betra veðurs til að fara Röstina. Sem betur fer snéru þeir við og verða vonandi rólegir þar til lægir. Ef að ég kynni frönsku og ætti Bör á frönsku væri örugglega auðvelt að fá þá til að bíða þar til ég hefði lokið við að lesa fyrir þá bókina.
Nú í morgun fóru þeir aftur af stað á skútunni. Það er skíta bræla, þó skárra en í gær.
Ýmir kom í Ólafsvík á þriðjudag. Þau eru á leið í Flatey, en ákváðu að bíða af sér bræluna hér.
Ella og Símon litu við í spjall um borð í Golu í gærkvöldi. Við buðum upp á osta, vínber og smá appelsín.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.