Gola komin í Flatey.

Ingibjörg og Kristján á Súlu.Ingibjörg og Kristján á Súlu komu til Ólafsvíkur um hádegi í dag, laugardag,með viðkomu á Akranesi. Aðspurð fengu þau skíta brælu bróðurpart af leiðinni frá Reykjavík. þau ætla að vera í Ólafsvík til morguns. Þaðan fara þau í Stykkishólm, eða í Flatey.

Ég var að pumpa í slöngubátinn. Ólag var á dælunni, og sá ég ekki annað í stöðunni en rogast með bátinn upp á bensínstöð, til að dæla í hann. Þá kom Kristján með þessa fínu dælu, og kláraði málið. Ég kann Kristjáni mínar bestu þakkir fyrir.

 

 

Múkkarnir mættu til veislu.Við lögðum í hann upp úr hálf tvö. Renndum þegar við komum út á 30 m. dýpi og veiddu fisk sem dugar tvisvar í matinn. Önnur máltíðin verður steiktur fiskur, hin nætursaltað. Ætluðum að taka fugl líka, en vegna geymslupláss verður hann að bíða betri tíma. Wink

Rúmlega fyrri helmingurinn af leiðinni var frábært veður. Síðan brældi hann upp, þvert á allar veðurspár. 8 til 10 m/sek. í trýnið, og straumurinn á móti bárunni. Hund leiðinleg kröpp vindbára. Við voru að staulast þetta á rétt rúmlega fjögurra mílna ferð, samt var það helvítis barningur. Auðvitað hefði ég átt að slá af niður á tvær, þá hefðum við varla fundið neitt fyrir þessu. Við erum í fríi. Hvað liggur á?

Svona skakstur fer ekki vel í stýrimanninn. Enginn ætti að skilja það betur en ég, sjúklega lofthræddur maðurinn. þegar að ég fer upp fyrir fjögura metra hæð, rýkur öll skynsemi út í veður og vind. Þó svo að ég sjái það þegar ég sit í sófanum hvað þetta er vitlaust og ástæðulaust, ef öryggisbúnaður er í lagi.

En svona er lífið, einn hræðist þetta, en annar hitt. 

Nú þegar ég er að skrifa þetta um miðnætti, er komið stafa logn hér á legunni í Hafnarey. Næstu dagar hér í Flatey verða frábærir. Héðan förum við í Stykkishólm.

Slæmt, að á leiðinni lentum við í því óláni að rör fór í sundur, og höfðum við tapað nærri helmingnum af neysluvatninu þegar við tókum eftir því. Þá kemur sér vel að stýrimaðurinn er úr Eyjum og telur hvern dropa!

 það er þá ekkert annað í stöðunni er þvo upp úr sjó, til að eiga vatn í kaffið og til eldunar. Blautþurrkur verða að duga til þrifa á mannskapnum. Ég held það að sé erfitt um vatn hér í Flatey. En við könnum það á morgun, kannski rætist úr því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband