13.3.2011 | 14:26
Nú styttist í vorið og sjósetningu.
Nú er um það bil mánuður þar til sett verður á flot, alla vega verður það fyrir páska. Neisti, Halla, og Gola eru geymd í Höll hins himneska friðar á veturna. Gola er þeirra elst, eða 23 ára. Hún hefur verið í húsi, eða Höllinni alla vetur.
Við Fýlupokarnir hittumst í Höllinni alla laugardagsmorgna kl. 09:00 þegar bátarnir eru í húsi. Heitt á könnunni og tekið á móti gestum og gangandi. Þar eru þjóðmálin rædd, stundum af meira kappi en forsjá, ekkert er okkur óviðkomandi.
Suma laugardaga erum við að "bauka" í bátunum, allt verður að vera pússað, hreint og í lagi fyrir sumarið. Pétur Stefánsson, tengdafaðir minn, sagði að hirðuleysi væri dýrasti lúxusinn sem hægt væri að veita sér.
Við Hallgerðu áætlum að fara á Golu til Eyja í byrjun júní, framhaldið er svo óráðið. En við verðum um borð allt sumarfríið og allar helgar í sumar, eins og undanfarin ár.
Skrokklagið er fallegt á Golu, enda hafa þessir bátar verið framleiddir óbreyttir frá því 1982. Hörku sjóbátur, lifandi, veltur mikið þegar þannig liggur á henni. Auðvitað er ekki verið að flækjast á skemmtibát í vondum veðrum. En í þessum sumarbrælum sem maður lendir óhjákvæmilega í, á ferðalögum, hefur hún aldrei tekið dropa inn á sig.
Það er þröngt setinn bekkurinn, en hverju skiptir það þegar samkomulagið er gott ?
Neisti og Halla eru planandi bátar, ganga 30 til 40 mílur. Gola kemst á góðum degi 11 til 12. Við siglum 7 til 8 mílur. Þannig líður öllum vel, áhöfn, bát og vél.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.