Fræðslufundur skemmtibátaeigenda í félagsheimili Snarfara.

Í gærkvöldi var fræðslufundur varðandi skoðunarreglur skemmtibáta, fyrirlesari var Stefán Sthepenssen skipaeftirlitsmaður hjá Frumherja. Fundurinn var mjög vel sóttur og gagnlegur. Töluverðar breytingar eru frá því sem var áður, sumt til bóta, annað verra, eins og gengur. Handbókin er nokkuð góð, en ekki samræmi gagnvart reglugerð í öllum tilfellum.

Feld er niður krafa um að hafa í skemmtibátum bruna og sjóviðvörunarkerfi. Það tel ég vera afturför, er víst í samræmi við norrænar reglur og báta sem eru CE vottaðir. CE vottun er heilög og ósnertanleg. Nú þarf einungis fast slökkvikerfi í báta sem eru CE vottaðir og eru 15 m. eða styttri, með innanborðs bensínvél, eða innanborðs díselvél 120 kW. eða stærri. Eldri bátar, sem ekki eru CE merktir og búnir innanborðs bensínvélum skulu búnir föstu slökkvikerfi í vélarrúmi, aðrir ekki. Síðan til að flækja málið eiga CE vottaðir bátar að hafa fast slökkvikerfi, sé það tekið fram í handbók sem fylgir bátnum. Það getur verið misjafnt á milli báta tegunda, en í samræmi við það sem bátaframleiðandinn gaf upp þegar hann fékk vottun. Sem sagt, varla hægt að flækja þetta mikið meira. Ég er ekki með þessu að deila á Siglingastofnun, það verða allir að lúta í jörð fyrir CE guðinum, meira að segja Siglingastofnun Íslands.

Samkvæmt þessum reglum þarf ekki að vera fast slökkvikerfi í mínum bát lengur. Samt  krafði Siglingastofnun mig um teikningar af nýju kerfi sem ég setti í bátinn í vetur. Stofnunin vissi af þessu brölti vegna þess að ég varð að taka Halon kerfið úr og tilkynnti það, samkvæmt reglum, Siglingastofnun Íslands. Halon slökkvikerfi er það besta sem hægt er að fá, en Halon er ósoneyðandi efni. Ekki spyrja mig hvernig efni sem er lokað inni í loftþéttum kút, getur verið skaðlegt ósonlaginu. Teikningarnar fengu þeir að sjálfsögðu og gær voru samþykktar. Allt unnið samkvæmt eldri reglum, eins og ég ætla að hafa það í mínum bát. Svo virðist sem ekki viti það allir á Siglingastofnum í hvaða ógöngur þetta er komið.

Í eldri reglum var þetta einfaldara, allir skemmtibátar yfir 6 m. voru búnir brunaviðvörunarkerfi og yfir 8 m. voru búnir brunaviðvörunarkerfi, sjóviðvörunarkerfi og föstu slökkvikerfi í vélarrúmi. Ég vona bara að menn haldi sig við eldri regluna, að sjálfsögðu er það ekki bannað. Hver vill vera að flækjast út á sjó á plastbát sem getur fuðrað upp eins og hálmdýna, hafandi þessa hluti ekki í lagi.

Samkvæmt nýu samnorrænu reglunum eiga að vera dagmerki um borð, merkið á að vera uppi þegar legið er við ankeri. Á vélbátum á þetta merki að vera svört kúla. Þessi kúla er hvergi til sölu á íslandi. Einhver fundarmanna vissi af svona kúlu á byggðasafni einhverstaðar suður með sjó. Kúlan er að sjálfsögðu ekki til sölu, frekar en aðrir munir á safninu. Ég er með svarta fötu um borð, læt hana duga. Verst að það er ekki mastur á bátnum. Ég verð þá að setja fötuna á krókstjaka og binda við rekkverkið. Óneitanlega minnir búnaðurinn þá á niðstöng, en hvað gerir maður ekki fyrir CE guðinn.

Allir bátar með haffæri til strand og eða úthafsiglinga skulu hafa radarspegil um borð. Gildir þá einu hvort báturinn er smíðaður úr tré, plasti, járni, eða áli, eða hvað mikið af járni er uppi á stýrishúsinu á bátnum, til dæmis járnbogi sem heldur uppi loftnetum og radar. Radarspegill eru járnplötur sem raðað er saman og eru á stærð við fótbolta. Bátar sem hafa takmarkað farsvið, oftast litlit bátar allir úr plasti þurfa ekki radarspegil. CE guðinn hlýtur að geta útskýrt hvers vegna er allt í lagi að keyra þá niður í þoku, þessir litlu bátar eru í mestri hættu hvað það varðar.

Nú er farið að framleiða björgunarbáta sem eru pakkaðir inn í loftþéttar umbúðir. Ég er að fá einn þannig, nýjan frá Víking. Framleiðandinn ábyrgist að ekki þurfi að skoða bátinn aftur fyrr en eftir þrjú ár og þá aftur eftir þrjú. Siglingastofnun samþykir það fyrir sitt leyti, en Viking á Íslandi ekki. Hér skulu þeir skoðaðir á tveggja ára fresti.  Ástæðan eru sjóveikispillur í bátunum, sem eru seldir til Íslands, trúlega samkvæmt kröfu frá Siglingastofnun. Þar situr málið fast, pillurnar endast ekki nema í tvö ár, blys og allur annar búnaður í bátnum dugar í þrjú ár. Hver skoðun kostar rúmar 60.000,- kr. Ef skoðað er samkvæmt því sem framleiðandinn leggur til, á þriggja ára fresti sparast 10.000,-kr. á ári í 6 ár, það munar um minna. Þessar pillur eru leifar frá því að menn voru að lenda í því að dvelja í björgunarbát í marga sólarhringa. Þá er mikilvægt að menn séu ekki að kasta mikið upp, til að spara vatnið. Nú orðið er þessi tími talinn í klukkustundum, spurning hvort ekki má sleppa pillunum.

Nú gæti einhver haldið að ekki þurfi neinar sérstakar reglur um þessa hluti, menn hljóti að vilja hafa allt í lagi, sem varðar eigið öryggi og fjölskyldunnar. Það eru skráðir 700 skemmtibátar á íslandi, af þeim voru 630 ekki með haffæri á síðasta ári. Ég er alveg viss um það, að ég er ekki sá eini sem efast um að þar hafi allir hlutir verið í lagi um borð. Mesta púðrið hefur farið hjá Siglingastofnun í það að hamast á okkur, þessum 70 sem erum með haffæri, hinir eru látnir í friði. Þessir höfðingjar eru velkomnir um borð í Golu hvenær sem er, eins og hingað til.

Ég var í sambandi við Siglingastofnun í morgun. Mér var sagt að verið væri að vinna í þessum reglum og handbók. Ég skora á stjórnir allra félaga skemmtibátaeiganda, hvar sem er á landinu, að reyna að komast með puttana á milli meðan málið er opið. Eftir samtal mitt við stofnunina í morgun hef ég fulla trú á því að vel verð tekið á móti þeim og hlustað á öll rök í málinu.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband