10.4.2008 | 20:18
SIGURVON RE 133
Ég var vélstjóri á þessum bát í 7 ár. Fyrstu 2 árin var báturinn gerður út frá Fáskrúðsfirði á Loðnu, net, línu og troll. Fyrsta veturinn minn um borð vorum við á loðnu og netum. Báturinn hét þá SIGURVON RE 133. Um vorið var hún skýrð BÚÐAFELL SU 90 og hét það meðan hún var gerð út frá Fáskrúðsfirði.
Haustið 1971 var hún seld til Suðureyrar. Meðan hún var gerð út þaðan hét hún SIGURVON ÍS 500. Hún var gerð út á línu allt árið. Dagróðrar á haustin og veturna, útilega á sumrin.
Hún var gríðarlega örugg og góður sjóbátur. Bæði undir veiðarfærum og að ferðast á. Ekki veitti af, það var róið nánast í öllum veðrum. Ég var svolítið hissa á því fyrst þegar ég fór að róa þarna að línubátarnir á útleið gátu verið að mæta togurunum sem voru að fara í landvar. Á þessum tíma réru um 15 línubátar af þessari stærð frá vestfjörðum.
Við viss skilyrði, sérstaklega í logni og smásævi gat hún oltið svo mikið að engu líkara var en hún ætlaði hringinn. Jafn vel átti það til að súpa inn yfir bæði borð. Í vondum veðrum hreyfðist hún varla og tók varla dropa á dekk þegar við vorum að draga. þetta er oft einkenni báta sem eru svona lifandi í smásævi.
Eftir að ég hætti var hún yfirbyggð. Þá átti hún til að leggjast, ef var stíft lens á hornið. Ég held að þessi bátur sé í Sandgerði núna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.