5.7.2008 | 18:30
Kveðja frá Golu RE 945
Hún er ekki einleikin þessi veðurblíða hér í Eyjum. Í dag erum við búin að vera hér í tvær vikur og höfum aðeins fengið tvo daga, með leiðinda veðri.
Goslokahátíðin hefur verið hreint út sagt frábær. Vestaannaeyingar kunna þetta. Ef að þið haldið að það sé létt verk að vera hér á hátíðinni, þá er það misskilningur. Við vorum í Skvísusundi til kl. 03:00 síðastliðna nótt og verðum eitthvað lengur næstu nótt. Ekki er hægt að safna kröftum yfir daginn, hér rekur hver viðburðurinn annan, sem ekki má missa af. En eins og karlinn sagi, það er nógur tími til að sofa, þegar maður er dauður.
Nú má ég ekki vera að skrifa meira, læt inn nokkrar myndir, sem tala sínu máli. Um borð í Golu verður grillaða lambakjöt í kvöld. Ég þarf að fara að fá mér bauk, til að geta farið að snúa mér að grillinu.
Hér koma bátarnir sem sigldu í kringum landi til að safna peningum fyrir langveik börn. Okkur er sagt að söfnunin hafi gengið vel.
Arnar Sigurmundsson var með frábæra leiðsögn um miðbæinn í dag. Áður höfum við hlustað á Arnar lýsa staðháttum fyrri tíma á Bæjarbryggjunni á föstudaginn. Arnar er mjög vel inni í sögunni og lýsti öllum staðháttum á mjög lifandi hátt. Arnar segir mjög skemmtilega frá og trúlega, eins og aðrir góðir sögumenn, lætur ekki góða sögu gjalda sannleikans. Hér færi ég Arnari okkar bestu þakkir fyrir frábæra stund.
Elva, Palli og Hilmar fóru með okkur í Klettshelli. Þar var fyrir fullur bátur af fólki, frá Kaffi Krús. Þar um borð var spilað á lúður, ógleymanleg stund.
Hljómsveitin Logar afhjúpaði minnisvarða um Gölla Valda, að viðstöddu miklu fjölmenni í kirkjugarðinum í dag.
Athugasemdir
Glæsilegar myndir hjá þér Árni, man eftir þér í Kísiliðjunni sumarið 1979, var með Lamba í málningarvinnu, og síðan á vöktum fram í desember, fór þá til Bolungarvíkur og er þar enn.
kveðja Halli
Hallgrímur Óli Helgason, 5.7.2008 kl. 19:13
Sæll Halli, þakka þér fyrir að segja þetta. Ég man eftir þér og Lamba. Lambi var þarna flest sumur meðan ég var þar. Ég var í Kísiliðjunni til ársins 1991, Flutti þá til Reykjavíkur, hef unnið hjá Eimskip síðan.
Við höfum komið nokkrum sinnu við í Víkinni, þegar við höfum verið að ferðast fyrir vestan.
GOLA RE 945, 5.7.2008 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.