21.7.2008 | 13:39
Mánaðarlöngum túr lokið, fríið búið.
Við erum búin að vera um borð í Golu síðan 20. júní, ef frá eru taldir þrír dagar í síðustu viku. Það hefur verið blíðu veður allan tíman, að undanskildum fjórum dögum. Betra getur það ekki orðið.
Eins og fram hefur komið byrjuðum við á því að fara til Eyja. Þar dvöldum við í rúmar tvær vikur. Ekki veit ég hvort það að stýrimaðurinn er fædd og uppalin í Eyjum, flutti þaðan 1968, eða að fólkið í Eyjum er svona við alla, að mér fannst ég vera eins og heimamaður síðustu dagana. Hafið þökk fyrir frábæran tíma. Meðan á dvölinni stóð, sigldum við kringum eyjarnar, gengum Heimaey þvera og endilanga, fórum í útsýnisferð með rútu og gengum allar götur bæjarins margsinnis.
Mánudaginn eftir goslokahátíð fórum við að dóla heim á leið. Fyrst fórum við til Grindavíkur, svo til Keflavíkur, þaðan í Hvammsvík í Hvalfirði. Í eftirmiðdaginn á föstudag komum við á Akranes. Við giftum okkur þar, um borð í Golu, fyrir ári síðan.
Meðan við dvöldum á Akranesi buðu vinir okkar, Birna Pálsdóttir og Sigurður Grímsson okkur til sín í sumarhús sem þau eiga í Svínadal. Náðu í okkur á laugardag og skiluðu okkur aftur á Skagann á sunnudag. Við áttum með þeim fínar stundir í skúrnum, eins og allar stundir með þeim eru.
Á mánudagskvöldið héldum við til Reykjavíkur, komum þangað upp úr miðnætti. Þá tóku við þvottar, nóg var af óhreinu taui eftir langan túr, þrátt fyrir að allt væri þvegið í Eyjum. Ég hef mitt fasta hlutverk við þvotta heimilis, það er að koma því sem mér tilheyrir í óhreina taus körfuna í þvottahúsinu. Á einhvern yfirnáttúrulegan hátt skilar það sé svo tandur hreint upp í skáp.
Um hádegi á föstudag fórum við í Hvammsvík á árlega hátíð sem Snarfari heldur þar. Hátíðin tókst í alla staði vel, í frábæru veðri. Við komum heim síðari hluta dags í gær, sunnudag. Þar með var túrnum sem hófst 20. júní formlega lokið.
Ef þið viljið lesa um Hvammsvíkurhátíð og ferðina hefur stýrimaðurinn skrifað um það á sína síðu. leitarorðið er hallgerður. Það er líka hægt að fara þangað hér á síðunni í gegnum mína tengla. Ég læt fylgja hér nokkrar myndir, það eru fleiri myndir frá ferðinni í myndaalbúm, Eyjaferð 2008.
Sunnudagsmorgun á Hvammsvíkurhátíð.
Athugasemdir
Fottar myndir hjá þér Árni, ef mér skjátlast ekki er þetta Siggi Gríms á mynd hjá þér, sem var líka að vinna í Kísiliðjunni á sama tíma og þú, man vel eftir honum líka, kannske hittir maður ykkur ef þið rennið inn í höfnina hér í Bolungarvík einhverntíma.
Hallgrímur Óli Helgason, 27.7.2008 kl. 12:05
Sæll Hallgrímur. það er rétt hjá þér, Siggi var í Kísiliðjunni 1978 til 1980.
Stefnan er að fara vestur næsta sumar, þá er líklegt að við komum í Víkina til að taka olíu.
GOLA RE 945, 27.7.2008 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.