11.5.2009 | 21:22
Gola RE 945 farin í árlega ferð til Vestmannaeyja.
Nú er Gola komin til Vestmannaeyja þriðja sumarið. Við ætlum að hafa hana þar fram yfir sjómannadag og vera í Eyjum um helgar. Ég fór með bátinn til Grindavíkur aðfaranótt fimmtudags síðastliðinn, vitandi það að yrði hvass norðan átt á laugardag þegar til stóð að sigla til Eyja. Spáin gekk eftir og sigldum við frá Grindavík á laugardags morgun í N. 10 til 15 m/sek. Við hefðum ekki farið fyrir Reykjanes í því veðri, svo það kom sér vel að hafa verið búinn að klára þann legg.
Nafni minn Árni Rúnar sigldi með mér til Eyja frá Grindavík. Hann er 15 ára, við höfum ferðast mikið saman síðan hann var 5 ára. Ferðin gekk vel, þrátt fyrir talsverðan vind. Við fórum með landinu að Selvogi, en tókum þar stefnuna á Eyjar. Þá var eitthvað farið að draga úr vindi.
Við Þrídranga var komið ágætis veður. þar flugu Hafliði og Steini yfir okkur, miðað við flughæð hafa þeir verið í einhvers konar hafrannsóknum.
Gola komin á pláss í höfninni. Við Hallgerður stýrimaður hlökkum mikið til að eyða þarna næstu fjórum helgum. Við verðum komin í sumarfrí sjómannadags helgina og siglum trúleg í Breiðafjörð, eða norður á Strandir, eftir sjómannadag. En allt veltur það á því hvenær gefur að sigla frá Eyjum.
Þessi bátur var að fara á sjó á sunnudags morguninn. Mér sýndist hann vera með gildrur. Ekki veit ég hvað hann er að veiða í gildrurnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.