Færsluflokkur: Dægurmál

Að ýmsu þarf að hyggja í Hvammsvík fyrir sumarið.

Árni, Hafliði, Steini.Hér erum við félagarnir að skála fyrir því þegar við höfðum lokið við að tengja vatn og rafmagn á bryggjuna, í fyrra sumar.

Við fórum í gær til að taka saman efni sem þarf að fara með þegar bryggjan verður standsett og sett á flot. Það þarf að styrkja festingar, skipta um keðjur sem bryggjan er fest með og færa lagnirnar undir dekkið, setja fendera á báðar hliðar og á hornin að framan.

Síðan ætlum við að gera ráðstafanir til þess að auðvelt sé að komast í rafmagn á flötinni fyrir ofan bryggjuna. Margir eiga minni báta, sem ekki er hægt að gista í með alla fjölskylduna. Þeir geta nú verið í Hvammsvík á bátnum og notið þess að sigla um Hvalfjörð, en haft gistaðstöðu með rafmagni og rennandi vatni á flötinni fyrir ofan bryggjuna. það er von okkar að sem flestir Snarfarafélagar nýti sér þessa aðstöðu í sumar.

Morgun í Hvammsvík.Þarna horfum við yfir víkina í átt að Hvammshöfða. Þar ætlum við að setja út fleka, líkan þeim sem Snarfari er með á Þerneyjarsundi. Síðan setjum niður þarna niður þrjú örugg ból til að liggja við. 

Hann á það til að rjúka upp með austan átt, ef hún er hvöss er óliggjandi við bryggjuna. Þá er gott að geta farið að flekanum, eða á bólin. Þar er nokkuð gott skjól fyrir austan áttum. Þessar rokur standa sjaldnast lengi.

Hvammsvíkurnefnd lofar þarna betri aðstöðu en nokkurn tíma hefur verið. við ráðum ekki alveg við veðrið, en erum að vinna í málinu. Við lumum á nokkrum góðum ráðum varðandi veðrið, en þau gefum við aðeins á staðnum.

 


Bátasport er orðið að heilsárssporti.

Vetrarríki í Snarfara.Það er kuldalegt um að líta við höfnina í Snarfara þessa dagana.

Nú færist það í vöxt að menn séu með bátana á floti allt árið. Enda geta komið frábærir dagar til siglinga á veturna. Flestir bátana eru með góða upphitun, þannig að það er heitt og notalegt um borð, þó að kalt sé úti.

Við erum að hugsa um að hafa GOLU á floti næsta vetur.

Það fer að skorta bæði fugl og fisk á heimilinu, þannig að við verðum að setja á flot fljótlega. En GOLA er í húsi núna, svo að við tímum varla að taka hana út fyrr en tíðin skánar aðeins.

JÓN MAGNÚS ex. GOLAHér er JÓN MAGNÚS ex. GOLA, gamli báturinn minn. Ég keypti bátinn 1999 af Jóni Helga, oft kenndan við Bykó. Jón fékk hann nýjan 1987, báturinn hét ÖRK hjá Jóni. Ég seldi Jóni Jónssyni bátinn vorið 2006 og skýrði hann bátinn JÓN MAGNÚS.

Ég ferðaðist mikið á þessum bát, hér í Faxaflóanum, Breiðafirði, alla vestfirði, Ísafjarðardjúp, Jökulfirði og víkurnar norður að Horni. 

GOLA er hörku fínn sjóbátur, en gat verið hrekkjótt á lensi, ef ekki var borin full virðing fyrir því að lens er hennar veikleiki.

Mín reynsla er sú, að það er alveg sama hvað báturinn er góður, allir eiga þeir sína veiku hlið.   


Aukin áhugi fyrir útgerð frístundabáta.

Þessir bátar eru af ýmsum stærðum og gerðum. Margir eru með fiskibáta sem seld hafa verið veiðileifin af og þeir skráðir sem skemmtibátar, eða eiga bát af minni gerð, en hefur verið smíðaður sem skemmtibátur. Þessir bátar eru mest notaðir til að veiða fisk og fugl. Eftir að félagsmenn Snarfara komu upp tjaldstæði fyrir félagsmenn við Bryggjuna í Hvammsvík geta allir sem eiga báta sem ekki eru með gistiaðstöðu dvalið með fjölskylduna í Hvalfirði um helgar.

Síðan eru aðrir með stærri báta, með öllum þægindum til að búa um borð. þessir bátar eru eins og fljótandi sumarbústaður. GOLA RE 945 er einn af þeim.

Grillað í bíðunni á Hornafirði.Hér er verið að grilla í blíðunni á Hornafirði þegar við vorum þar í hringferðinni í sumar. við vorum svo heppin að þar stóð yfir humarhátíð, helgina sem við vorum þar.

 

 

 

 

 

Tækin í stýrishúsinu.Siglingartækin, tvö G.P.S. tæki, til staðsetningar. Þetta eru gömul tæki, með þeim fyrstu á markaðnum og eru því ekki með plotter, eða kortum. Þessar græjur duga mér vel og ég er viss um að Flóki, sem hafði stjörnurnar og þrjá hrafna hefði verið glaður með þessa gripi.

Á milli G.P.S. tækjanna er radar, mjög góður gripur. Ef ég þyrfti að velja á milli léti ég G.P.S. tækin fjúka, en héldi radarnum. Síðan er kompásinn, sem er mikilvægasta tækið og hægt að stóla á þegar allt hitt bregst.

Síðan eru dýptarmælir, sjálfstýring, V.H.F. talstöð, Gufunes talstöð og N.M.T. sími.

Stungið út í kort.þarna er verið að stinga út leiðina frá Hornafirði til Fáskrúðsfjarðar með viðkomu á Djúpavogi. Úti fyrir austfjörðum var N.A. kaldaskítur og var því ákveðið að fara grunnleið. það er að segja innan við öll sker og boða sem fært er.

Þegar við komum fyrir Hvalnes fórum við inn með nesinu, í gegnum Skorbeinsál yfir í Berufjörð. Rétt áður en við komum í álinn gerði kol svarta þoku, þannig að skyggi var innan við 15 metra. þetta var frekar óþægilegt. Þó radarinn sýni alla umferð, sker og hólma, sjást ekki boðar sem mara í kafi. En það er oft hægt að átta sig á hvar þeir eru, ef það er smá hreyfing þannig að "sjóði" á þeim. G.P.S. tækið sýnir, eins og ég stilli mitt tæki nákvæmni upp á 18 metra, getur verið 1,8 metrar ef ég hef einn aukastaf í viðbót. En þeir sem bjuggu til kortin höfðu engin rafeindatæki til viðmiðunar, kortin eru því ekki nákvæmari en þau tæki sem þeir höfðu geta boðið upp á. þarna getur því skekkja í kortum verið þó nokkur, miðað við nútíma tækni.

Þegar við vorum komin vel fram hjá Skorbeini beygðum við inn Berufjörð. Er við nálguðumst Djúpavog létti þokunni nægilega til þess að við sáum leiðarmerkin inn í höfnina.

Á Djúpavogi vorum við veðurteppt í þrjá daga. það væsti ekki um okkur á þessum fallega stað, allir bátar í landi og bryggjuspjall alla daga.

Frá Djúpavogi fórum við í N.A kaldaskít innan við Hlöðu, þvert yfir Breiðdalsvíkina, út með Kambanesi um Kvopusund út undir Skarðsboða. þaðan fórum við fyrir Kambanes innan við Fjarðarboða. það er svolítið sérkennilegt að sigla með landi, með brotin fyrir utan sig. 

Næst var stefnan tekin innan við Snæfuglsboða, fyrir Hafnarnes, inn Fáskrúðsfjörð.

 


Hvammsvík, paradís skemmtibátasiglingafólks.

Aðstaða Snarfara í Hvammsvík

Á þessari mynd má sjá aðstöðu sem félagsmenn í Snarfara hafa komið sér upp í Hvammsvík. Á flotbryggjunni er rafmagn og rennandi vatn. Myndin er tekin síðastliðið sumar á fjölskylduhátíð sem Snarfari heldu síðari hluta júlí, ár hvert. Hátíðina í sumar sóttu um hundrað mans á 25 bátum.  Komið var upp aðstöðu með rafmagni fyrir ofan bryggjuna, fyrir þá sem vildu gista í felli eða hjólhýsum. Vegna þeirrar aðstöðu var nokkuð um að stórfjölskyldan kom á hátíðina. Leiktækjum var komið upp, fyrir börnin.

Morgun í Hvammsvík

Morgun í Hvammsvík.

Fátt er friðsælla en taka morguninn um sjö leitið og njóta kyrrðarinnar meðan maður rennir niður hafragrautnum.

Sigling í Hvalfirði.

Stýrimaðurinn og mamma slaka á, á siglingunni út Hvalfjörðinn á heimleið.

Hvammsvík 045

Óli Július ( Sverrir ) kom í heimsókn og var búinn að missa tönn.


Veturinn er notaður til að "ditta að" GOLU RE 945.

Gola 004Hallgerður 003

Þessar myndir eru teknar í Höllinni þar eru GOLA, HALLA og NEISTI í vetur. Það er mikill kostur að geta haft bátinn inni yfir veturinn. það er alltaf eitthvað sem þarf að laga og endurbæta svo að allt virki rétt yfir sumarið. Það er hluti af sportinu yfir veturinn að bauka í bátnum á laugardögum. Í vetur var sett ljósavél í Golu. það verður fínt að þurfa ekki að spara rafmagnið, eða setja aðalvél í gang til að hlaða á rafgeyma þegar legið er einhversstaðar, þar sem ekki er kostur á landtengingu. Yfir sumarið erum við í bátnum flestar helgar. Síðastliðið sumar sigldum við kringum landið, tókum í það fjórar vikur. Frábær ferð, en vorum frekar óheppin með veður. Í sumar ætlum við að sigla norður á Hornstrandir, Jökulfirði og Ísafjarðardjúp.

Hallgerður 014

Óli var að skipta um Zink og síur á vélinni í Höllu. Óli fékk þennan bát nýja frá Noregi 2006. hann átti fyrir eldri bát, sömu gerðar. Sá eldri heitir nú Mardís. ég held að Mardís sé til sölu, ef einhverjum vantar bát.

Hallgerður 010

Steini endurnýjaði bátinn í vetur. Keypti LILJU af Hafliða og skírði NEISTA. Með steina á myndinni er Helga útgerðarstjóri. Ég óska þeim til hamingju með þennan glæsilega bát. Fyrir áttu þau eldri bát, JÓN SVEINSSON sömu tegundar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband