Færsluflokkur: Dægurmál

Við Hallgerður vorum á sjó um helgina.

Slappað af í blíðunni.Þegar við fórum rétt fyrir kvöldmat á föstudag voru þessir félagar eitthvað að brasa á bryggjunni, en gáfu sér tíma til að gæða sér á hákarli og öli. Ekki er stressinu fyrir að fara þarna.

 

 

 

 

 

Óli og Halla að fara um borðÓli og Halla voru í Þerney, höfðu ný lokið við að borða grillmat þegar við komum. Þau fóru í land um kvöldið. Við vorum þar um nóttina. Í góðu veðri geta morgnarnir á Þerneyjarsundi verði ólýsanlega fallegir.

Snarfari er með fleka á Þerneyjarsundi. Það er hægt að vera með báta við fjórar hliðar. Á flekanum eru borð, bekkir og grill. Þessi aðstaða er mikið notuð af Snarfara félögum og öðru bátafólki.

Á laugardaginn fórum við út á Flóa í renni blíðu. Því miður bilaði myndavélin á laugardags morgun, þannig að við eigum ekki myndir úr túrnum.

Við veiddum nokkra fiska, en annars láum við mest í leti á dekkinu og létum reka. Það var mikið af hval fyrir utan Gróttu. Enda var þar vaðandi síli og mikið af lóðningum niður við botn. Hallgerði leist ekki meira en svo á þegar hvalirnir voru að blása 20 metra frá bátnum. En áttaði sig svo á því að hvölunum var jafn illa við það og okkur að þeir rækjust í bátinn.

Um kl. 18:00 komum við í Reykjavíkurhöfn. Í kvöldmat var einn af fiskunum sem við veiddum. Snöggsteiktur á pönnu, síðan látinn malla í rjóma með papriku og tómötum í nokkrar mínútur. Það verður ekki mikið betra.

Hvalaskoðunarbátarnir eru byrjaðir, það er því nokkuð líf við höfnina. Á góðum degi er mjög gaman að vera þarna, iðandi mannlíf.

Við sigldum í Snarfarahöfn um hádegið, enn var sama blíðan. Svo er bara að vona að gefi um næstu helgi.

Í fyrramálið keyri ég til höfuðstaðar Íslands, Raufarhafnar og verð þar fram á föstudag.

 

 

 

 

 


Á hafnasvæði verður allur rafbúnaður að vera vatnsþéttur.

Í Snarfarahöfn hafa orðið tæringarskemmdir vegna lélega rafmagnssnúra hjá bátaeigendum. Hefur tónið á einstökum bátum numið frá tugum þúsunda, upp í hundruði þúsunda. Nokkuð dýr trassaskapur það. þetta væri svo sem í lagi ef enginn annar en sá sem veldur útleiðslunni yrði fyrir tjóni. Hann getur sloppi, en næsti eða jafn vel þar næsti bátur orðið fyrir tæringu. Rafmagnið fer auðveldustu leiðina, það er að segja finnur skrúfu sem er með bestu leiðnina og vinnur sitt skemmdarverk hljóðlega.

Snúrurnar eiga alls ekki að liggja í sjónum. Ef snúran liggur í sjónum fer með tímanum raki inn í hana og hún fer að leiða út. Klær og hulsur eiga að vera vatnsheldar og það á ekki að nota plastsnúrur, eða annan búnað  sem eru ætlað fyrir notkun inni.

Fyrir utan tjónið sem þessi lélegi búnaður veldur, getur hann stein drepið. Mín skoðun er sú að þeim sem eru ekki með búnað sem uppfyllir reglugerð um raflagnir á hafnarsvæðum á að segja upp rafmagnssamningi, án viðvörunar. Það er ekki spurning um hvort verður slys af þessu snúrudrasli, heldur hvenær og hversu alvarlegt.

þessar snúrur duga vel innandyra, en ekki á hafnarsvæði.Þessar snúrur eru fínar til að nota inni, eins og þær eru ætlaðar til, en eiga ekkert erindi á bryggju.

 

 

 

 

 

 

Þetta er alveg út úr korti.Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég sé þetta fjöltengi á bryggjunni, er að eigandi þess sé orðinn þreyttur á lífinu.

 

 

 

 

 

 

þessi búnaður er til fyrirmyndar.Svona á þetta að vera. Snúrur, klær og fjöltengi ætlað fyrir hafnarsvæði. Þetta er til fyrirmyndar, enda er F.P.F. með þennan tengil.


Ekki var siglt um helgina.

Ég fór ekki á svarfugl um helgina. Hann hékk í NA strekkingi fram eftir laugardeginum. Konan var enn slöpp eftir flensuna, þannig að við fórum ekki á sjó. Heima á Raufarhöfn hefði veið sagt að hún væri tussuleg, en það segir maður ekki á blogginu.

Bátur í minni Dýrafjarðar.Þessum bát sigldum við framhjá út af Dýrafirði í fyrra sumar og tókum þessa mynd. Þrem tímum síðar var báturinn sigldur niður af hraðfiskibát.

Ég hef verið með í því að sigla niður bát. Báturinn, sem var 11 tonna Bátalónsbátur sökk á innan við tveim mínútum. það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig okkur  leið meðan við vorum að tína mannskapinn upp úr sjónum. En sem betur fer slasaðist enginn.

 

 

 

Þar sem Jökulinn ber við himinn.Þar sem jökulinn ber við himinn, hættir landið að vera til, og jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki neinar sorgir, þess vegna er gleði ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu. H.K.L.


Vorið er komið.

Gáttin opnast á Höllinni.Biðin hefur verið nokkuð löng eftir því að þessi hurð opnaðist. Við settum á flot í gærkvöldi.

 

 

 

 

 

 

Gola tilbúin að fara á flot 2008GOLA fór fyrst út, enda var hún við hurðina.

 

 

 

 

 

 

 

Steini leggur á ráðin við Óla.Hér leggja þeir Steini og Óli á ráðin hvernig best sé að standa að því að færa næsta bát til hliðar. Það mætti halda að sé verið að gera þetta í fyrsta sinn.

 

 

 

 

 

HALLA og NEISTI.HALLA og NEISTI

 

 

 

 

 

 

 

GOLA og NEISTI.GOLA og NEISTI við þjónustubryggjuna, HALLA komin í sitt pláss.

 

 

 

 

 

 

LILJALILJA Glæsilegur bátur sem kom nýr í fyrra.

Við settum SELJABLIKA líka niður, en Grétar var svo snöggur í burtu með bátinn, að ég náði ekki mynd af honum.

 

 

 

 

 

Tækin í stýrishúsinu.Nú er bara eftir að athuga hvort allt virka rétt. Ég renndi lauslega yfir það í gærkveldi. Það sem ég er búinn að prófa virðist í lagi, nema annar G.P.S inn. Hann er eitthvað daufur, það kemur betur í ljós í dag.

Ef stýrimaðurinn verður búinn að jafna sig á veikindum förum við eitthvað á eftir og komum heim á morgun. Annars fer ég á svartfugl.

 


SIGURVON RE 133

SIGURVON RE 133Ég var vélstjóri á þessum bát í 7 ár. Fyrstu 2 árin var báturinn gerður út frá Fáskrúðsfirði á Loðnu, net, línu og troll. Fyrsta veturinn minn um borð vorum við á loðnu og netum. Báturinn hét þá SIGURVON RE 133. Um vorið var hún skýrð BÚÐAFELL SU 90 og hét það meðan hún var gerð út frá Fáskrúðsfirði.

Haustið 1971 var hún seld til Suðureyrar. Meðan hún var gerð út þaðan hét hún SIGURVON ÍS 500. Hún var gerð út á línu allt árið. Dagróðrar á haustin og veturna, útilega á sumrin.

Hún var gríðarlega örugg og góður sjóbátur. Bæði undir veiðarfærum og að ferðast á. Ekki veitti af, það var róið nánast í öllum veðrum. Ég var svolítið hissa á því fyrst þegar ég fór að róa þarna að línubátarnir á útleið gátu verið að mæta togurunum sem voru að fara í landvar. Á þessum tíma réru um 15 línubátar af þessari stærð frá vestfjörðum.

Við viss skilyrði, sérstaklega í logni og smásævi gat hún oltið svo mikið að engu líkara var en hún ætlaði hringinn. Jafn vel átti það til að súpa inn yfir bæði borð. Í vondum veðrum hreyfðist hún varla og tók varla dropa á dekk þegar við vorum að draga. þetta er oft einkenni báta sem eru svona lifandi í smásævi.

Eftir að ég hætti var hún yfirbyggð. Þá átti hún til að leggjast, ef var stíft lens á hornið. Ég held að þessi bátur sé í Sandgerði núna.


GOLA RE 945 fer á flot föstudag.

GOLA, HALLA og NEISTI fara á flot á föstudag. Bátarnir hafa verið í Höll hins himneska friðar í vetur. Þar höfum við unnið að ýmsum endurbótum.

Steini skipti ekki um vél í JÓNI SVEINSSYNI þennan vetur. Hann skipti um bát og skýrði hann NEISTA. Ýmsu hefur hann verði að breyta og bæta, eins og oftast þegar menn skipta um bát. NEISTI er eins bátur og JÓN SVEINSSON, en 11 árum yngri.

HALLA kom ný 2006 þannig að Óli hefur lítið þurft að gera, annað en þrífa, bóna og minniháttar lagfæringar.

Þetta er annar veturinn sem við eigum GOLU. Það er eitt og annað sem var lagað í vetur. Skipt um björgunarbát og slökkvikerfi, sett niður ljósavél, skipt um gólfteppi í vistarverum og eitt og annað.

Ég sett með myndir frá sjósetningu á GOLU í fyrra, sem var í fyrsta sinn sem hún var sjósett með því nafni og í okkar eigu. Báturinn hét áður STEINUNN og var í eigu Jóns Víglundssonar.

Steini er ábúðarfullur við tilsögnina.Það er svolítið þröngt að komast út um hurðina á Höll hins himneska friðar.

 

 

 

 

 

 

GOLA er falleg með flöggin.Nú er ekkert að vanbúnaði, að renna henni í sjóinn.

 

 

 

 

 

 

Skipstjórinn búinn að gera allt klárt fyrir niðursetningu.Skipstjórinn er nokkuð ánægður með sig, enda að norðan. Frá Raufarhöfn.


Vinnuferð Hvammsvíkurnefndar 29.03.08

Hallgerður Pétursdóttir stýrimaður á GoluÁ myndinni sjáum við aðstöðu Snarfara í  Hvammsvík, að sumarlagi. Myndin er tekin á Hvammsvíkurhátíð Snarfara 2007.

Fremst á myndini er stýrimaðurinn á GOLU RE 945.

 

 

 

 

 

Flotinn við bryggju

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hafliði og Árni að loknu dagsverki.Hafliði og Árni, helvíti sperrtir að loknu verki.

 

 

 

 

 

 

 

Steini og Hafliði með rafstöðina.Steini og Hafliði með rafstöðina. Ekkert er meira gefandi en ganga í verk með svona dugnaðarforkum. Allir ganga í verkið að afli, áður en við vitum af er öllu lokið.

 

 

 

 

 

 

Hafliði og Árni.Við gengum frá keðjum, settum sterkari en áður. Nú hangir bryggjan í hvaða veðri sem er, þar til endinn slitnar af.

 

 

 

 

 

 

Hákarlinn skorinn að loknu dagsverki.Hér er komið að Hákarlinum hjá Hafliða. Allir gerðum við honum góð skil. Við Steinu renndum honum niður með bjór og Brennivíni, Hafliði með vindinum, Hafliði keyrði heim. Í minni sveit var það þannig, sá sem var svo fullur að hann gat ekki sungið, keyrði. Einhver breyting hefur orðið á, með aukini umferð.

 

 

 

 

Árni Bjarnason á DýraOkkar kæri vinur Árni Bjarnason skipstjóri á Dýra, á Hvammsvíkurhátíð 2007.


Fræðslufundur skemmtibátaeigenda í félagsheimili Snarfara.

Í gærkvöldi var fræðslufundur varðandi skoðunarreglur skemmtibáta, fyrirlesari var Stefán Sthepenssen skipaeftirlitsmaður hjá Frumherja. Fundurinn var mjög vel sóttur og gagnlegur. Töluverðar breytingar eru frá því sem var áður, sumt til bóta, annað verra, eins og gengur. Handbókin er nokkuð góð, en ekki samræmi gagnvart reglugerð í öllum tilfellum.

Feld er niður krafa um að hafa í skemmtibátum bruna og sjóviðvörunarkerfi. Það tel ég vera afturför, er víst í samræmi við norrænar reglur og báta sem eru CE vottaðir. CE vottun er heilög og ósnertanleg. Nú þarf einungis fast slökkvikerfi í báta sem eru CE vottaðir og eru 15 m. eða styttri, með innanborðs bensínvél, eða innanborðs díselvél 120 kW. eða stærri. Eldri bátar, sem ekki eru CE merktir og búnir innanborðs bensínvélum skulu búnir föstu slökkvikerfi í vélarrúmi, aðrir ekki. Síðan til að flækja málið eiga CE vottaðir bátar að hafa fast slökkvikerfi, sé það tekið fram í handbók sem fylgir bátnum. Það getur verið misjafnt á milli báta tegunda, en í samræmi við það sem bátaframleiðandinn gaf upp þegar hann fékk vottun. Sem sagt, varla hægt að flækja þetta mikið meira. Ég er ekki með þessu að deila á Siglingastofnun, það verða allir að lúta í jörð fyrir CE guðinum, meira að segja Siglingastofnun Íslands.

Samkvæmt þessum reglum þarf ekki að vera fast slökkvikerfi í mínum bát lengur. Samt  krafði Siglingastofnun mig um teikningar af nýju kerfi sem ég setti í bátinn í vetur. Stofnunin vissi af þessu brölti vegna þess að ég varð að taka Halon kerfið úr og tilkynnti það, samkvæmt reglum, Siglingastofnun Íslands. Halon slökkvikerfi er það besta sem hægt er að fá, en Halon er ósoneyðandi efni. Ekki spyrja mig hvernig efni sem er lokað inni í loftþéttum kút, getur verið skaðlegt ósonlaginu. Teikningarnar fengu þeir að sjálfsögðu og gær voru samþykktar. Allt unnið samkvæmt eldri reglum, eins og ég ætla að hafa það í mínum bát. Svo virðist sem ekki viti það allir á Siglingastofnum í hvaða ógöngur þetta er komið.

Í eldri reglum var þetta einfaldara, allir skemmtibátar yfir 6 m. voru búnir brunaviðvörunarkerfi og yfir 8 m. voru búnir brunaviðvörunarkerfi, sjóviðvörunarkerfi og föstu slökkvikerfi í vélarrúmi. Ég vona bara að menn haldi sig við eldri regluna, að sjálfsögðu er það ekki bannað. Hver vill vera að flækjast út á sjó á plastbát sem getur fuðrað upp eins og hálmdýna, hafandi þessa hluti ekki í lagi.

Samkvæmt nýu samnorrænu reglunum eiga að vera dagmerki um borð, merkið á að vera uppi þegar legið er við ankeri. Á vélbátum á þetta merki að vera svört kúla. Þessi kúla er hvergi til sölu á íslandi. Einhver fundarmanna vissi af svona kúlu á byggðasafni einhverstaðar suður með sjó. Kúlan er að sjálfsögðu ekki til sölu, frekar en aðrir munir á safninu. Ég er með svarta fötu um borð, læt hana duga. Verst að það er ekki mastur á bátnum. Ég verð þá að setja fötuna á krókstjaka og binda við rekkverkið. Óneitanlega minnir búnaðurinn þá á niðstöng, en hvað gerir maður ekki fyrir CE guðinn.

Allir bátar með haffæri til strand og eða úthafsiglinga skulu hafa radarspegil um borð. Gildir þá einu hvort báturinn er smíðaður úr tré, plasti, járni, eða áli, eða hvað mikið af járni er uppi á stýrishúsinu á bátnum, til dæmis járnbogi sem heldur uppi loftnetum og radar. Radarspegill eru járnplötur sem raðað er saman og eru á stærð við fótbolta. Bátar sem hafa takmarkað farsvið, oftast litlit bátar allir úr plasti þurfa ekki radarspegil. CE guðinn hlýtur að geta útskýrt hvers vegna er allt í lagi að keyra þá niður í þoku, þessir litlu bátar eru í mestri hættu hvað það varðar.

Nú er farið að framleiða björgunarbáta sem eru pakkaðir inn í loftþéttar umbúðir. Ég er að fá einn þannig, nýjan frá Víking. Framleiðandinn ábyrgist að ekki þurfi að skoða bátinn aftur fyrr en eftir þrjú ár og þá aftur eftir þrjú. Siglingastofnun samþykir það fyrir sitt leyti, en Viking á Íslandi ekki. Hér skulu þeir skoðaðir á tveggja ára fresti.  Ástæðan eru sjóveikispillur í bátunum, sem eru seldir til Íslands, trúlega samkvæmt kröfu frá Siglingastofnun. Þar situr málið fast, pillurnar endast ekki nema í tvö ár, blys og allur annar búnaður í bátnum dugar í þrjú ár. Hver skoðun kostar rúmar 60.000,- kr. Ef skoðað er samkvæmt því sem framleiðandinn leggur til, á þriggja ára fresti sparast 10.000,-kr. á ári í 6 ár, það munar um minna. Þessar pillur eru leifar frá því að menn voru að lenda í því að dvelja í björgunarbát í marga sólarhringa. Þá er mikilvægt að menn séu ekki að kasta mikið upp, til að spara vatnið. Nú orðið er þessi tími talinn í klukkustundum, spurning hvort ekki má sleppa pillunum.

Nú gæti einhver haldið að ekki þurfi neinar sérstakar reglur um þessa hluti, menn hljóti að vilja hafa allt í lagi, sem varðar eigið öryggi og fjölskyldunnar. Það eru skráðir 700 skemmtibátar á íslandi, af þeim voru 630 ekki með haffæri á síðasta ári. Ég er alveg viss um það, að ég er ekki sá eini sem efast um að þar hafi allir hlutir verið í lagi um borð. Mesta púðrið hefur farið hjá Siglingastofnun í það að hamast á okkur, þessum 70 sem erum með haffæri, hinir eru látnir í friði. Þessir höfðingjar eru velkomnir um borð í Golu hvenær sem er, eins og hingað til.

Ég var í sambandi við Siglingastofnun í morgun. Mér var sagt að verið væri að vinna í þessum reglum og handbók. Ég skora á stjórnir allra félaga skemmtibátaeiganda, hvar sem er á landinu, að reyna að komast með puttana á milli meðan málið er opið. Eftir samtal mitt við stofnunina í morgun hef ég fulla trú á því að vel verð tekið á móti þeim og hlustað á öll rök í málinu.

 

 

 


Réttindi skipstjóra á skemmtibátum og haffæri bátana.

Loksins er það komið á hreint varðandi réttindi skipstjóra skemmtibáta. það hefur því miður verið á reiki. Siglingastofnum hefur sagt að ekki þurfi réttindi, en Landhelgisgæslan hefur krafist réttinda. þetta hefur skapað óvissu varðandi tryggingar. Tryggingafélögin hafa krafist þess að skemmtibátur sem eru tryggðir hafi haffæri og skipstjórinn hafi "tilskilinn réttindi", sem engin vissi hver voru.

Frá síðustu áramótum má engin vera skipstjóri á skemmtibát 6 m. eða lengri, nema hann hafi í það minnsta réttindi til að mega stjórna skemmtibát. Sömu réttinda er krafist á bát styttri en 6 m. ef vélin er stærri en 55 kW. Allri óvissu hefur því verið eitt. Nú eiga allir að geta verið með sitt á hreinu varðandi réttindi.

Annað hagsmunamál skemmtibátaeigenda hefur verið lagað. Nú eru komnar sér reglur varðandi útbúnað skemmtibáta til að þeir fái haffæri. Áður giltu sömu reglur og gilda um fiskibáta, eða trillur. Til viðbótar við það að reglur hafa verið rýmkaðar önnumst við nú sjálfir skoðunina, það eitt sparar okkur rúm tuttugu þúsund á ári. fjórða hvert ár á skoðunarstofa að annast skoðunina.

Útbúin hafa verði sérstök skoðunarblöð sem á að fylla út og senda Siglingastofnun, sem gefur þá út haffæri fyrir viðkomandi bát.  Auðvitað er þetta ekki fullkomið, en þar sem komnar eru sér reglur fyrir skemmtibáta ætti að vera auðveldara að sníða af galla.

Samkvæmt reglunum eiga skemmtibátar að vera búnir föstu slökkvikerfi. En ég get ekki séð að þeir eigi að vera búnir brunaviðvörunarkerfi, eða sjóaðvörun. Þetta hljóta að vera mistök.

Ég gef ekkert fyrir þetta vesen sem krafist er varðandi stillingu á kompás. Þessir kompásar eru yfirleitt ekki stilltir, heldur búin til leiðréttingartafla. Flestir bátar eru búnir G.P.S. tæki, í honum er áttarviti.  Flestir bera þetta saman á siglingu og vita nokkurn veginn hvað segulkompásinn er réttur. Planandi báta "svansa" líka það mikið á stefnunni, að skekkja í kompás upp á eitt strik breytir þar litlu. þeir bátar sem eru með haffæri til strand og úthafsiglinga eiga þar að auki að hafa miðunarkompás, gamla skátann. Menn ættu því að geta bjargað sér til lands, kunni þeir að nota kort og kompás.

Nú finnst mér, þegar óvissuþáttum varðandi réttindamál hefur verið eytt, að klúbburinn okkar Snarfari eigi að gera þá kröfu að ekki séu aðrir bátar með hafnaraðstöðu hjá okkur en þeir sem eru með haffæri, tryggingar í lagi og ekki stjórni aðrir bátnum í höfninni en sá sem hefur til þess réttindi.


Allur matur úr sjó er lostæti.

SvarfuglÍ kvöld borðum við svartfugl. Þó ég segi sjálfur frá og sé ekki vanur að hæla mér, er ég snillingur í að elda allt sjókjöt.

Nú marineraði ég fuglinn í sólarhring í karry, pipar, salt og olíu. það er best að vera nokkuð frakkur, bara loka augunum og láta kryddið vaða. Ég er ekki lærður kokkur, er norður Þingeyingur, montið hjálpar.

Snögg steikið fuglinn á pönnu og sjóða í einn tíma, til einn og hálfan.

Gera sósu af soðinu, aðeins að "dassa" með karry, rjóma og rabbarasultu. Þessu er ekki hægt að klúðra. Kartöflurnar voru forsoðnað, mjög létt, síðan hitaða á pönnu í olíu, með einhverju stöffi sem hendi var næst. Ég hafði, smá hvítlauk, sítrónupipar, eitthvað annað sem ég man ekki hvað var, en lyktin af því var góð.

Ég smakka aldrei það sem ég er að elda, treysti á lyktarskynið. Þegar ég svindla á því, bið ég konuna að smakka. Hún er betri kokkur en ég,  mjög kurteis þessi elska.

Á okkar heimili borðum við festar helgar mat úr sjónum, ýmist skotið, eða veitt á færi. Frá Önundi Kristjánssyni frændi mínum á Raufarhöfn höfum við fengið stöku sinnum höfrung sem hann fær í net. Höfrungur er eitt það besta sem fæst úr sjó.

Þeir sem eru ekki vanir svartfugli, eða kunna ekki við "sjóbragði" bendi ég á að reyna að verða sér úti um "netafugl".  Fuglinn kemur í netin þegar verið er að leggja. Þegar hann kemur niður á dýpið "blóðspringur hann inn". Blóðið fer úr kjötinu, í innyflin. Þessi fugl er ekki eins bragðsterkur og að sjálfu leiðir ekki jafn góður fyrir lengra komna. Við skjótum okkar fugl. Nema hvað.

Sætubragð er mjög gott í matseldina. Til dæmis að nota sultu í marineringu og sósu. Að sjálfsögðu eru þá hafðar með sykurhúðaðar kartöflur.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband