Færsluflokkur: Dægurmál
13.3.2011 | 14:26
Nú styttist í vorið og sjósetningu.
Nú er um það bil mánuður þar til sett verður á flot, alla vega verður það fyrir páska. Neisti, Halla, og Gola eru geymd í Höll hins himneska friðar á veturna. Gola er þeirra elst, eða 23 ára. Hún hefur verið í húsi, eða Höllinni alla vetur.
Við Fýlupokarnir hittumst í Höllinni alla laugardagsmorgna kl. 09:00 þegar bátarnir eru í húsi. Heitt á könnunni og tekið á móti gestum og gangandi. Þar eru þjóðmálin rædd, stundum af meira kappi en forsjá, ekkert er okkur óviðkomandi.
Suma laugardaga erum við að "bauka" í bátunum, allt verður að vera pússað, hreint og í lagi fyrir sumarið. Pétur Stefánsson, tengdafaðir minn, sagði að hirðuleysi væri dýrasti lúxusinn sem hægt væri að veita sér.
Við Hallgerðu áætlum að fara á Golu til Eyja í byrjun júní, framhaldið er svo óráðið. En við verðum um borð allt sumarfríið og allar helgar í sumar, eins og undanfarin ár.
Skrokklagið er fallegt á Golu, enda hafa þessir bátar verið framleiddir óbreyttir frá því 1982. Hörku sjóbátur, lifandi, veltur mikið þegar þannig liggur á henni. Auðvitað er ekki verið að flækjast á skemmtibát í vondum veðrum. En í þessum sumarbrælum sem maður lendir óhjákvæmilega í, á ferðalögum, hefur hún aldrei tekið dropa inn á sig.
Það er þröngt setinn bekkurinn, en hverju skiptir það þegar samkomulagið er gott ?
Neisti og Halla eru planandi bátar, ganga 30 til 40 mílur. Gola kemst á góðum degi 11 til 12. Við siglum 7 til 8 mílur. Þannig líður öllum vel, áhöfn, bát og vél.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2011 | 19:28
Fýlupokafélagið lýsir eftir nafni.
Fýlupokafélagið, lýsir eftir nafni á þetta mannvirki. Mannvirkið er Hjallur sem við höfum verið að smíða í vetur. Hér ætlum við að distelera sjáfarfang, fisk og kjöt. Þeir sem hafa uppástungu um nafn á Hallinn eru vinsamlega beðnir að setja það inn á bloggið. Hvað á Hjallurinn að heita?
Byggingin er stálgrindarhús, klætt með krossviði með neti fyrir vindopum. Veggir hvítmálaðir, þakið svart, sést aðeins úr lofti, eins og á Hörpunni. Í forrými er veiðarfærageymsla. Hugsanlega höfum við þar Appelsín til að væta kverkar þegar unnið er í aðgerð.
Að eiga svona mannvirki er draumur allra sem eru í útgerð. Við létum drauminn rætast. Á morgun getur það verið of seint. Hjallurinn er 6 fm. En hann á eftir að stækka, alla vega í frásögnum, þegar aldurinn færist yfir okkur.
Hér erum við Fýlupokarnir við mannvirkið.Talið frá vinstri er auðvitað fremstur "Meðal jafningja" vel að merkja" Árni nokkur Pálsson, þá Þorsteinn Garðarsson unglingurinn í hópnum.
Hafliði Árnason jarl frá Látrum. Hallgrímur Axelsson mígur upp í vindinn enda verkfræðingur.
En síðast og ekki síst Ólafur Tryggvason staðarhaldari og útvegs bóndi. Sem hýsir drauminn enda undirlendið svo langt sem augað eygir.
Halla, kona Ólafs Útvegsbónda bauð upp á snafs og morgunmat að verki loknu.
"Þá var ek mat mínum fegnastur er ek náði honum" sagði Grettir Ásmundsson. Og tókum við undir það félagarnir. Enda höfum við sjaldan flotinu neitað.
Við erum sáttir eftir vel unnið verk vetrarins. Þó ekki hafi niðurstaða fengist í Icave umræður okkar félaga á laugardagsfundum okkar í Höll hins himneska friðar..
Enda geta ekki allir verið rétt hugsandi bolsar eins og undirritaður..
Á heimleið fengum við veitingar á verkstæðinu hjá Hafliða.
Rætt var um Hjallastefnuna. Sem við höfum unnið að alla sunnudagsmorgna í vetur.
Niðurstaðan lá fyrir: Hvað getur kona og karl gert saman? tveir karlar? En ekki tvær konur? Einhver?
Migið í sama kopp.
Er vandi þjóðarinnar þar? Hvað veit ég.
Dægurmál | Breytt 13.3.2011 kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.8.2010 | 19:13
Viltu taka á móti spottanum?
Eftir fallegt sumarævintýri sem verður lengi í minnum haft. Ekki síst fyrir það að sumt er svo nálægt manni sem okkur yfirsést.
Einn morgun í Grundarfirði tók ég eftir Mávi sem sat í grjóthleðslu hafnarinnar. Hann hoppaði á milli steina. Fljótlega sá ég ástæðuna, hann var vængbrotinn. Annar Máfur kom og stuggaði við honum, en án árangurs.
Var svo í vomum á sjónum fyrir neðan og gaut augunum upp til hans. En-gafst upp. Sá vængbrotni stikaði á milli steina og reyndi að finna æti í þaranum.
Mér þótti þetta verra, að geta ekki komið honum til aðstoðar. Spurði manninn minn, getum við gert eitthvað? Já skotið hann var svarið.
Sem mér hugnaðist ekki. Viltu fara með hann til dýralæknis? Nei.
Svo segjum við hvort öðru að við höfum alltaf val. Mitt val þarna var að gera ekki neitt.
Ég er enn að hugsa til hans, bjargar hann sér vængbrotinn?
Í ferðinni las Skipstjórinn fyrir stýrimanninn tvær sögur. Bör Börsson og Strákurinn í röndóttu náttfötunum. Sem átti að lokum ekkert val.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2010 | 18:23
Octopus er aðeins stærri en Gola RE 945
Við hjónin fylgdumst með þegar snekkjan sigldi inn á Miðbakkann. Dásamlega fallegt skip eins og Golan og svipuð i öllum aðalatriðum nema ef vera skyldi þyrlurnar og kafbátarnir.
Höfum ekki séð ástæðu til þess að fjárfesta í slíkum búnaði. Enda segir Skipberinn stundum að stýrimaðurinn sé kafbátur útaf fyrir sig?
Stýrimaður Golu RE 945 stóð á Miðbakkanum og tók við endunum á Octopus enda vön kona..
Vinur Bill Geitssonar hreyfst svo af vönduðum vinnubrögðum að hann bauð mér í mat.
Því miður átti ég ekki heimangengt, Stjáni Blái hafði sett þverskorna ýsupíku í pott. Bað um að eiga matarboðið það inni.
Ekkert mál sagði blessaður maðurinn. Þetta mun vera stærsta skemmtiferðaskip í einkaeigu í heiminum. Þó á fyrirtækið tvö önnur.
Komst ekki hjá því að spá í hvort það væri elskast meira í stórum skipum en aðeins minni ?
Auðvitað kemst ég aldrei að því harðgift konan svo hjálpi mér gvöð.
Nóg hefur sá sem sér nægja lætur sagði amma iðulega. Og var þá ekki að tala um svona ósköp. Heldur hvort hún ætti til hnífs og skeiðar...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2010 | 18:09
Síðasta vígið fallið!
Ég verð að viðurkenna það. Skipstjórinn um borð í Golu RE 945 bað um smá aðstoð við að baka upp jafning með bjúgum.
( Er hann ekki sætur stelpur )?
Ekkert mál gæskurinn ég skal sýna þér það, en þetta er vandi! Það hlakkaði smá í undirmanninum yfir væntanlegu slysi. Munandi enn eftir fyrsta jafningi mínum sem fór í kekki hjá ný giftri konunni a öldinni sem leið.
Nema hvað, þetta lék í höndunum á manninum. Allt er í heiminum hverfullt. En meðal annarra orða, þarf að sjóða hveitijafning í 5 mínútur?
Skrifað í 101 Reykjavík anno 2010 á fimmtudegi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2010 | 15:36
Nornaveiðar eru öllum frjálsar á Íslandi.
Eftir því sem ég kemst næst er engin kvóti á þeim veiðum einhverra hluta vegna. Við þurfum ekki einu sinni að segja til nafns? Bara vera nösk á hver er ögn verri en við sjálf. Og að sjálfsögðu koma fyrirlitningu okkar til skila.
Enda margir sem róa á þau mið. Það þarf ekkert að borga og engin spyr um nafn. Ég hef verið að fylgjast með strandveiðunum af gefnu tilefni. Tengdasonum minn stundar þær með góðum árangri. Á veturna er hann í námi.
Hann þarf að gefa upp tekjur sínar sem hann gerir með glöðu geði. Þau hjón eru bæði í námi með stórt heimili en kvarta ekki. Hann færir björg í bú um leið og hann býr í haginn fyrir hópinn sinn inn í veturinn.
Sem er jú ekki frétt út af fyrir sig, eða hvað?
Það er hins vegar frétt að Árni Johnsen söng fyrir kunningja sinn hjá einhverjum manni sem býr í húsi Jóns Ásgeirs! Og tók ekki fyrir það túskilding með gati.
Ég spyr, er allur okkar frændbálkur og fjölskylda lýtalaust fólk, já eða við sjálf?
Gæti það komið við kauninn ef grannt skoðað?
Hvað gæfi það í aðra hönd að fara nú að selja Nornarveiðar? Það er sýnist mér búmannshola sem vert er að gefa gaum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2010 | 22:00
Haldiði ekki að kærasta mannsins míns númer 1 hafi verið hérna!
Ódámurinn, hvað vildi hún upp á dekk? Ég hélt að ég væri í skemmtiferð. Í Grundarfirði. Það sem á mann er lagt.
Ég hélt að við hjónin værum í skemmtilegu sumarfríi svo dynja þessi ósköp yfir!
Hún kemur labbandi niður bryggjuna "dillandi" sér og spyr þann gamla: Hvað heitir þessi fallegi bátur?
Hann mundi það ekki sá gamli !
Hann hét áður Steinunn umlaði hann.
Hallgerður " mín" taktu nú eina mynd af okkur!
Sem ég gerði til eins og hertur handavinnupoki.
Og útkoman auðvitað hallærisleg. OK. Þau myndast ágætlega. Enda er ég annálaður ljósmyndari.
Auðvitað getur fólk pósað sem þau gerðu . Að öllu gamni slepptu er þetta gullfallegt fólk. Með hjartað á réttum stað. Eyjakonan Elva Ósk og peyinn frá Raufarhöfn..
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2010 | 22:54
Þá liggur þetta fyrir.
Bæði Belgingur og sú Norska segja lag að sigla aðfaranótt mánudags inn í Faxaflóann. Sem er langur.
Langbrókin tekur rútu úr Grundarfirði klukkan 5 á sunnudag. Skipherinn siglir inn í mánudaginn einn.
Svona er ég nú harðbrjósta. Þá er ég ekki að tala um hvelfdan barn heldur sjálfhverft innræti.
Sú sjálfhverfa metur stöðuna þannig að vont sé að vera með skíthrætt fólk um borð. Rétt mat hjá Langbrókinni. Ég verð 3 tíma heim í Naustabryggju en maðurinn minn 14 tíma. Nú þegar er komin aðskilnaðarkvíði.
Þetta frí eins og áður sagði, hefur verið fallegt ævintýri frá upphafi. Allt hefur sinn tíma. Og núna tekur alvara við...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2010 | 19:16
Treystirðu þér upp stigann?
Treysti ég mér? Þú talar við mig eins og sextuga kerlingu! Auðvitað treysti ég mér upp. Ekki tefur það mig perustefnið...
Fallegi hafnarstjórinn hér í Grundarfirði bað okkur að færa Goluna í tæpan sólahring því von væri á skemmtiferðaskipi tveimur frekar en einu.
Við mættu leggjast utan á Haukabergið á meðan. Ekkert mál sagði Kapteininn óvenju mjúkmáll. Karlmenn! Veit að hann væri ekki svona stimamjúkur ef hafnastjórinn væri karl á sama aldri. Er bara alveg klár á því.
Hafnarstjórinn er með aðstöðu í fallegu húsi hér rétt fyrir ofan okkur og Stjáni Blái gerir sér upp erindi ferð eftir ferð hann þarf svör við svo mörgum spurningum eins og til dæmis hvað búi hér margir!
Hann segist ekki muna eftir flottari þjónustu frá hendi hafnarstjóra og hefur hann þó sopið þær margar fjöruna.
Aftur að stiganum auðvitað tek ég hann með annarri, þó engin taki eftir lipurð minni ..
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2010 | 14:02
Bátafólkið hætt að nenna að þvo á bretti
Enda líka þetta flotta þvottahús hér í Grundafirði.
Grundafjörður kom okkur báðum skemmtilega á óvart. Öll hús í topphirðu og allt umhverfi. Núna um helgina er hátíð hjá innbyggjurum og gestum sem eiga leið fram hjá. Allir velkomnir.
Æ fleiri sveitarfélög efna til fagnaðar einhverja helgina í júlí og flestum er kunnugt um heiti þeirra. Grundfirðingar kalla sína : Góðir dagar. Hófstillt nafn en spennandi. Bátafólkið ætlar að taka þátt.
Við höfum komið víða við í 5 ár en hvergi fengið aðrar eins móttökur og hér. Hafnarstjórinn tók á móti okkur falleg ung kona og tók endann, bauð okkur velkomin í þá hreinlegustu og flottustu höfn sem við höfum séð.
Hrunið kom víst ekki hingað sem betur fer. Hér er okkur boðin góðan dag sama hvern við hittum. Kannski erum við Reykvíkingar að sigla inn í þetta fjölskylduvæna umhverfi sem við sjáum úti á landi? Þar sem fólk virðist hafa tíma til að njóta augnabliksins sem kemur jú aldrei aftur.
Kannski er ein afleyðing hrunsins sú að við förum að spjalla saman og njóta samvista við fólkið okkar.
Eldsnemma í morgun fóru tveir vinir út á fjörð á lítilli skel enda er víst krökkt af þeim "GULA"
Nema hvað, þeir komu færandi hendi með í kvöldmatinn fyrir okkur, glænýjan þorsk sem verður pönnusteiktur með rjóma og kálmeti hverskonar.
Þetta er eitt besta frí sem við höfum átt saman.
Eftir helgina verður siglt heim á leið, ég tek rútuna í bæinn ef spáin er þess eðlis. Hérahjartað er á sínum stað Talandi um það, af hverju hérahjarta þegar verið er að tala um skræfur?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)